top of page

Í Garðahverfi fylgjast með breytileika himinhvolfsins, landslagsins, lífríkisins, byggðarinnar, árstíðanna og sólarhringsins; tengjast fortíðinni, njóta staðar og stundar í kyrrð og ró og horfa fram á veginn.​

Hjarta hverfisins

 

Krókur, Garðaholt og Garðakirkja mynda hjarta hverfisins. 

Aðkoma að Garðahverfi er um Garðaveg og Garðaholtsveg sem eru fallegir sveitavegir. Garðavegur liggur frá Hrafnistu í Hafnarfirði í gegnum hverfið og áfram út á Álftanes. Garðaholtsvegur liggur inn í hverfið úr norðaustri af Álftanesvegi. Gatnamót veganna eru við félagsheimilið Garðaholt, gegnt Króki. Garðakirkja er skammt undan og ber fallega við himin.

Garðkirkja og kirkjugarðurinn

 

Umhverfi Garðakirkju er friðsælt og fallegt. Þangað geta gestir og gangandi leitað í gleði og sorg.  Kirkugarðurinn er kyrrðarreitur og hluti af útivistarsvæði Garðahverfis. Þaðan má fylgja minningarleiðinni í gegnum garðinn að Garðalindinni og áfram niður í fjöru.

Garðakirkja hefur verið sóknarkirkja Garðasóknar frá 1966. Kirkjan er byggð úr rústum kirkju sem var reist í Görðum árið 1880 en var lögð niður sem sóknarkirkja árið 1914 og síðan rifin að mestu. Að frumkvæði kvenna í Kvenfélagi Garðahrepps hófst endurbygging kirkjunnar árið 1953 og var hún vígð 20. mars 1966.

 

Garðar hafa langa og fróðlega sögu sem kirkjustaður sem lesa má um hér.

Krókur og Garðaholt

 

Garðaholt er fallegt samkomuhús sem var upphaflega skólahús og þinghús íbúa í Garðahreppi, reist á árunum 1908 - 1911. Kvenfélag Garðabæjar sér um rekstur hússins, sem leigt er út fyrir margs konar félagsstarfsemi, árshátíðir, veislur og hvers konar samkomur aðrar. Salur hússins rúmar um 120 gesti í sæti.

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem stendur á móti Garðaholti. Bærinn var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Bærinn er með þremur burstum en árið 1923 var miðburst bæjarins byggð og bæjarhúsin þá aðeins baðstofa og eldhús auk lítils skúrs við útidyrnar. 

Krókur er eign Garðabæjar og opinn almenningi til sýnis á sunnudögum á sumrin (júní - ágúst) frá kl. 13-17.  Aðgangur er ókeypis. Hópar sem vilja skoða Krók geta haft samband við bæjarskrifstofurnar í síma 525 8500. Nánari upplýsingar hér.

Allt til eilífðar

 

Garðafélagið sem er félag áhugamanna um verndun Garða, studdi við gerð deiliskipulags Garðahverfis í samstarfi við bæjarstjórn Garðabæjar og sóknarnefnd Garðaprestakalls.

 

Garðafélagið hefur einnig staðið fyrir byggingu listaverksins „Allt til eilífðar“ í Garðakirkjugarði. Listaverkið sækir til íslenskrar byggingararfleifðar og tengir fortíð, nútíð og framtíð saman með áþreifanlegum og huglægum hætti; tengir kirkjugarðinn við Garðalindina, þar sem þraut aldrei vatn. 

 

Það voru listamennirnir Kristinn E. Hrafnsson og Steve Christer sem hönnuðu listaverkið.

 

Garðafélagið bauð til stuttrar athafnar í Garðakirkjugarði þann 21. október 2015, þar sem félagið afhenti Garðabæ og sóknarnefnd Garðaprestakalls listaverkið og deiliskipulag Garðahverfis formlega. Sjá hér nokkrar myndir úr þeirri athöfn.

Listaverkið ber með sér auðmýkt og er óður um tilvist okkar og rætur. Það endurspeglar fágun og þjóðfélagslega ábyrgð arkitektúrs sem tekur tillit til samfélags og umhverfis.

Sumar

 

Heyskapur er enn stundaður í Garðahverfi. Tún eru að jafnaði slegin seinni partinn í júní og í júlí og há í ágúst. Þannig gefst sjaldgæft tækifæri til að fylgjast með heyskap á miðju höfuðborgarsvæðinu.


Á sumrin er fuglalíf með fjölbreyttasta móti þegar ungar koma úr hreiðrum og má sjá fjölda tegunda sjó- og vaðfugla við strandlengjuna auk mófugla í holtinu.

Haust

 

Sölvatekja hefur lengi talist til hlunninda og mikilvægra sjávarnytja við Íslandsstrendur, ekki síst á Suðvestur- og Vesturlandi. Söl, eða Rauðþörunga er hægt að tína síðsumars, frá miðjum ágúst og fram í september. Best er að fara á fjöru, eða jafnvel stórstraumsfjöru þar sem þau festa sig gjarnan á annan þara eða steina sem þarf að slíta þau af.


Haustið er jafnframt tími farfuglanna sem búa sig undir vetrarsetu. Margæsir hafa viðkomu á leið sinni frá Írlandi til norðausturhluta Kanada frá miðjum september til byrjunar nóvember. Aðrar fuglategundir, svo sem kría og heiðlóa yfirgefa landið frá september og fram í nóvember.

Vetur

 

Garðahverfið er síður en svo sneytt lífi að vetrarlagi. Þá má sjá stóra hópa smáfugla fljúga í þyrpingum yfir holtinu í leit að æti. Hestar eru víða á beit og kindur jórtra letilega við útihúsin.


Skammdegið gefur einnig kost á að stunda stjörnuskoðun og eru aðstæður til þess ágætar í Garðahverfi sem stendur í vari fyrir ljóshafi höfuðborgarsvæðisins og snýr mót opnum suðurhimni.

Árstíðaskipti

 

Vor

Talið er að margæsastofninn telji um 20.000 fugla og bendir allt til þess að allur stofninn hafi viðdvöl hérlendis, á leið frá Bretlandseyjum til varpstöðva sinna í norðausturhluta Kanada. Fyrstu margæsanna verður vart fyrri hluta apríl og þeim fjölgar jafnt og þétt þar til hámarki er náð í kringum tíunda maí. Þær safna hér orkuforða þar til þær hverfa á braut síðustu daga maí mánaðar. Ólíklegt er að margæsin gæti komist þessa 4.500 km sem eru á milli varpstöðva hennar og vetrarsetu án viðkomu hér á landi og má því segja að Ísland gegni lykilhlutverki í viðhaldi stofnsins.


Að auki er Ísland langmikilvægasta einstaka varpsvæði fuglategunda eins og heiðlóu (60%) og kríu (60-70%) sem báðar eiga varpstöðvar í Garðahverfi. Krían kemur í apríl-maí og yfirgefur landið í ágúst-september. Heiðlóan kemur snemma í apríl frá Vestur-Evrópu en varp hefst um miðjan maí.


Búskapur er í Hlíð, Dysjum, Nýjabæ og Pálshúsum, alls um 150 fjár og einhverjir hestar. Á vorin, þegar sauðburður gengur í garð má sjá ær með lömb á vappi, en á sumrin er þeim beitt í Krísuvík.

Sólarhringurinn

 

Garðahverfisins má njóta bæði í myrkri og birtu og sjá merki um
dægursveiflur. Í Garðafjöru er tækifæri til að fylgjast með flóði og fjöru og áhrifum þeirra sveiflna á lífríkið. 

GRIÐARSTAÐUR

Garðahverfi er friðsæll staður þar sem svo vel sjást merki um gang tímans.

Hjarta hverfisins
Kirkjan og kirkjugarðurinn
Krókur og Garðaholt
Allt til eilífðar
Árstíðarskipti
Sólarhringurinn
bottom of page