top of page
Landslag

 

Garðaholt rís rúmlega 30 metra yfir sjávarmál og er tiltölulega flatt, en almennt er landhalli ekki meiri en 6 gráður. Brattasti hluti holtsins er sunnan í fornu eiði eða malarási sem gengur austur úr því. Þar nær hallinn um 20 gráðum. Sunnan og suðaustan Garðaholts er flatlendara og jarðvegsdýpt meiri en á holtinu sjálfu. Garðaholtið er talsvert grýtt með klöppum. Austan þess liggur Búrfellshraunið, en á milli hraunsins og holtsins liggur land lægra og þar hefur myndast votlendi, svokölluð Dysjamýri. 


Svæðinu má skipta upp í nokkrar landslagseiningar sem hver hefur sín einkenni, sjá mynd.

Austast liggur Búrfellshraunið sem rís nokkra metra yfir landið vestan þess. Hraunið er nokkuð úfið en víða er gróðursælt í bollum og lautum. Ræktað land þekur stóran hluta skipulagssvæðisins. Austasti hluti þess, það er svæðið austan Dysja og Pálshúss, er framræst votlendi með mun þykkari jarðvegi en ræktaða landið vestar. Austast í Dysjamýrinni undir hraunjaðrinum niður við sjó er Balatjörn, en milli tjarnarinnar og sjávar er hár brattur kambur. Á framræsta landinu eru ekki mikil merki um fornleifar. Heldur meira sést annarsstaðar á ræktuðu landi, þá aðallega fornir garðar.


Neðan Garðakirkjugarðs er Garðamýrin þar sem land liggur örlítið lægra en umhverfið í kring og nær niður að sjávarbakkanum. Ofan Garðamýrarinnar liggur mjó ræma af grösugu landi sem teygir sig vestur ofan sjávarkambsins. Þetta er eina vel gróna þurrlendið á skipulagssvæðinu, þar sem jarðvegsdýpt er nokkur, sem ekki hefur verið tekið undir ræktun. Á þessari ræmu má víða sjá merki um fornminjar.


Vesturhluti Garðaholtsins er nokkuð vel gróinn en þar er jarðvegur mjög grunnur og land grýtt. Gamlar hleðslur og fornar tóftir einkenna þetta land, sérstaklega innan hins forna Garðatúngarðs. Utan garðsins eru fornminjar ekki eins áberandi og land ekki eins grösugt og innan hans.

 

Efst á Garðaholti er skógræktarreitur sem byrjað var að planta í á 6. áratug síðustu aldar. Þar eru barrtré mest áberandi.


Háir bakkar einkenna strandsvæðin, einkum austan Garðamýrar. Þar er talsvert um bakkarof þar sem ágangur sjávar brýtur land, aðallega við nesið við Bakka. Hraun eru á strandsvæðunum allt frá Dysjum í austri og vestur að Hlíð.

Vatnafar

 

Grágrýtið er lekt berg, en undir mýrarjarðveginum við Dysjar og víðar er allþétt berg, setlög, sem skýrir tilvist mýrarjarðvegsins að hluta. Garðalind er neðan við Garðakirkju og leiðir Jón Jónsson jarðfræðingur líkum að því að vatnsborð hennar sýni ekki raunverulega hæð grunnvatns á svæðinu, heldur sé um að ræða falskt grunnvatnsborð sem komi fram ofan á þéttu millilagi úr seti í grágrýtinu.

Berggrunnur

 

Berggrunnur Garðaholts er úr beltuðu grágrýti, annars vegar úr venjulegu grágrýtishrauni sem runnið hefur á þurru landi á hlýskeiðum á milli jökulskeiða og hins vegar bólstraberg sem myndast hefur þegar hraun hefur runnið í vatni eða undir ís á jökulskeiði. Bólstrabergslögin sjást best við ströndina neðan við Dysjar og Bakka. Víða standa jökulrákaðar grágrýtisklappir upp úr jarðveginum, aðallega efst á Garðaholti.
 

Jökulrákirnar eru eftir steina sem fastir voru neðan í jökulísnum, sem þannig virkaði eins og sandpappír á undirliggjandi bergið. Af stefnu jökulrákanna má ráða síðustu rennslisstefnu jökulsins sem yfir þeim lá.
 

Á suðaustanverðu holtinu liggur Búrfellshraun (á þessu svæði kallað Garðahraun), sem rann úr Búrfelli fyrir um 7000 árum. Búrfellið, sem er sunnan Heiðmerkur, er fallegur gígur. Hann er einstakur á heimsvísu og sést í fjarska frá ströndinni í austri.

Upphaf gönguleiðar á Búrfell um Búrfellsgjá er frá Heiðmerkurvegi við Vifilstaðahlíð.

Jarðvegur

 

Grágrýtið er víða hulið lausum jarðlögum og seti. Við ströndina fyrir neðan Garðahverfið og efst austan megin á Garðaholti má sjá strandset, sem er merki um hærri sjávarstöðu fyrr á tímum þegar jökla var að leysa. Efst á Garðaholti eru einnig merki um forna strandlínu sjávar. Nokkuð þykkur mýrarjarðvegur liggur í lægðum á sunnanverðu holtinu við Dysjar að Búrfellshrauni og við austanverða Skógtjörn þ.e. Álamýri. Á þessum stöðum og víðar sést að sjávarstaða hefur einnig verið verulega lægri en hún er nú, þar sem sjórinn herjar nú á landið, eins og rofabörð við ströndina sýna. Það sést einnig á því hvernig sjávarfitjungur tekur við af mýrargróðri við Skógtjörn.
 

Örnefnin Garðatjörn, Skógtjörn og Miðengi bera þess einnig merki, þar sem þar eru ekki lengur tjarnir og engi, heldur víkur og flóar. Sjávarstaðan hefur verið lægri fyrir um 9000 árum og enn þegar Búrfellshraunið rann, því það ber þess merki að hafa runnið á þurru landi, þar sem sjór er nú.

Gróðurfar

 

Gróðurfar Garðahverfis er um margt líkt gróðurfari á öðrum nesjum á höfuðborgarsvæðinu. Graslendi er ríkjandi utan túna, yfirleitt með meiri en 66% gróðurþekju að einstaka svæðum undanskildum, aðallega norðvestan í holtinu. Algengar tegundir á graslendum nesjum á höfuðborgarsvæðinu eru túnvingull, blávingull, vallarsveifgras og snarrótarpuntur. Innan um eru stinnastör, grasvíðir og krækilyng, ásamt ýmsum blómplöntum. Ýmsar mosategundir eru í sverði.
 

Engin óröskuð votlendi eru í Garðahverfi og flokkast þau sem hálfdeigjur. Dysjamýri er framræst og er búið að breyta mestum hluta hennar í tún. Neðan Garðakirkjugarðs er minna raskað votlendi sem nefnist Garðamýri. Norðvestan við Garðaholtið er Álamýri sem nær niður að Skógtjörn, búið er að ræsa hana fram án þess að breyta henni í tún. Grös og starir eru ríkjandi tegundir í þessum votlendum, sem einkenna mikið raskað votlendi.


Búrfellshraunið er að meirihluta til vaxið mosaþembu, en vestast í því, á svæðinu sem liggur að Dysjamýri er graslendi ríkjandi. Efst á Garðaholti er skógræktarreiturinn Grænigarður, þar sem einkum eru innfluttar trjátegundir.

Lúpína er ríkjandi meðfram veginum yfir Garðaholt frá Álftanesvegi að Garðahverfi og teygir sig norðvestur meðfram skógræktargirðingunni og meðfram Álftanesveginum. Nokkuð er um sjálfsáð birki á holtinu í kringum Grænagarð.


Samkvæmt plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar Íslands eru 3 plöntutegundir á válista í reit 3559 samkvæmt reitakerfi NÍ, en deiliskipulagssvæðið er inn á hluta þess reits.

Fuglar

 

Garðahverfi hefur að geyma ríkulegt og fjölbreytt fuglalíf árið um kring. Fuglalíf svæðisins er einstakt, innan mesta þéttbýlis landsins með lífríkum fjörum, frjósömum tjörnum og stórum lítið byggðum svæðum á borð við Garðaholt, sbr. fuglatalningu á Álftanesi frá 2014. Þangað sækja bæði varpfuglar, fargestir, fellifuglar og vetrargestir. Fjörur eru víðast hvar óraskaðar en gera þarf átak í að hreinsa fjöruna milli Pálsbæ að Hausastöðum. Samkvæmt vetrarfuglatalningum Náttúrufræðistofnunar, sem nær yfir svæðið frá Hvaleyri að Hliðsnesi, sáust um 50 tegundir fugla á svæðinu á árunum 2002 til 2008, þar af eru 6 tegundir sem teljast sjaldgæfar. Mest er um æðarfugl, en einnig er mikið um dílaskarf, stokkönd, sendling og snjótittling en taldir hafa verið yfir 2000 fuglar af þessum tegundum. Þá hafa einnig verið taldir yfir 1000 fuglar af hvítmávi, bjartmávi og hettumávi.

 

Á Garðaholti hafa nokkrar fuglategundir hreiðrað um sig, kríuvarp er suðaustan við veginn yfir Garðaholt og sílamávavarp er norðvestan í holtinu, einnig verpir nokkuð af mófugli á Garðaholti, auk þess sem Skógtjörnin er mikilvægt búsvæði fugla.

Að vori og hausti hafa stórir hópar margæsa viðdvöl í Garðahverfi á ferðum sínum milli Írlands og Kanada. Margæs er friðuð á Íslandi, en talið er að allur stofninn hafi viðdvöl hér á landi. Þar af er talið að um 10% margæsa-stofnsins í heiminum hafi viðdvöl árlega á svæðinu frá Hvaleyrarholti að Seltjarnarnesi en í Garðahverfi sækja þær einkum í 3 svæði; við Katrínarkot, neðan við Hlíð og við Pálshús. Lóur í stórum hópum sækja í túnin í Garðahverfi að vori er þær koma til landsins og að hausti þegar þær eru að undirbúa sig undir brottför frá landinu.

Við Skógtjörn eru fellistaðir álfta frá því um 15. júlí til 20. ágúst. Aðrar villtar dýrategundir eru hagamýs sem er talsvert af á svæðinu, einnig eru selir undan ströndinni einkum á grynningunum í átt að Hliðsnesi.

LÍFRÍKI OG LANDSLAG

Hér má fræðast um ýmsa þætti í sérstæðri náttúru Garðahverfisins.

Landslag
Berggrunnur
Jarðvegur
Vatnafar
Gróðurfar
Fuglar
bottom of page